„Að þreifa sig áfram í myrkrinu“: Ríkjandi stefnur og straumar um ungt flóttafólk í íslensku grunn- og framhaldsskólakerfi

Eva Harðardóttir & Berglind Rós Magnúsdóttir. „Að þreifa sig áfram í myrkrinu“: Ríkjandi stefnur og straumar um ungt flóttafólk í íslensku grunn- og framhaldsskólakerfiVeftímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla

Útdráttur

Þrátt fyrir að Ísland taki ekki á móti flóttafólki í jafn ríkum mæli og aðrar Evrópuþjóðir fer ungu flóttafólki hérlendis engu að síður fjölgandi í kjölfar alþjóðlegra og þvingaðra fólksflutninga. Á sama tíma má greina átakameiri umræðu um gildi fjölmenningar í aðlögun innflytjenda. Rannsóknir er varða nemendur af erlendum uppruna og skóla án aðgreiningar hérlendis hafa þó ekki beinst sérstaklega að stöðu ungs flóttafólks. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvers konar menntastefna er við lýði um ungt flóttafólk á Íslandi með tilliti til menntunar og félagslegrar aðlögunar. Í anda gagnrýnna menntastefnufræða voru greind tvö opinber stefnuskjöl er snúa að móttöku og þjónustu við flóttafólk og fimm rýnihópaviðtöl við fjórtán grunn- og framhaldsskólakennara. Niðurstöður benda til að stefna um ungt flóttafólk sé takmörkuð þar sem hún beinist aðallega að jöfnum rétti einstaklinga til aðgengis frekar en að leggja áherslu á gildi og inntak menntunar. Þá endurspeglar stefnan orðræðu nýsamlögunar (e. neo-assimilation) þar sem áhersla er lögð á ábyrgð einstaklinga á eigin námi og framtíðarmöguleikum í gegnum val, virkni og íslenskufærni fremur en samþætta og samfélagslega nálgun. Orðræða kennara bar vott um aukið álag í starfi þar sem þeir „þreifa sig áfram í myrkrinu“ og fá lítinn kerfislægan stuðning. Skortur á slíkum stuðningi sem og heildarstefnumótun gerði þeim oft erfitt um vik að taka siðferðislega faglegar ákvarðanir og ögra viðteknum og stöðluðum hugmyndum um margbreytileika og menntun.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *