Um

papis

Hnitmiðuð lýsing á verkefninu

Með nýjum grunnskólalögum árið 2008 voru lagðar auknar skyldur á herðar foreldra. Foreldrafélög voru bundin í lög sem og skólaráð sem hafa stefnumótandi hlutverk. Aðstoð við heimanám og virk samskipti við kennara og skólayfirvöld eru meðal lögboðinna hlutverka foreldra. Þessi þróun hérlendis er hluti af fjölþjóðlegri þróun sem hverfist um auknar skyldur foreldra gagnvart skólagöngu barna sinna (Reay, 2005). Á þeim níu árum sem
eru frá samþykkt laganna hefur lítið verið gert til að kanna hvaða áhrif þau hafa haft eða hvernig þau snerta möguleika ólíkra foreldra til að uppfylla þær kröfur sem stefnumið laga og námskrár setja. Í þessari rannsókn verður lögð áhersla á að greina þennan veruleika út frá kyni, hjúskapar- og stéttarstöðu sem og öðrum veigamiklum bakgrunnsþáttum. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að greina með markvissum hætti hvernig vinna mæðra og feðra birtist varðandi heimanám, tengsl við kennara og starfsfólk skóla, vinnu við tómstundir barna og vinnu við tilfinninga- og félagslega þætti sem upp koma hjá börnunum. Með menntavettvangi er hér átt við skólastarf á yngra og miðstigi grunnskóla, frístundir og tómstundir sem gjarnan taka við að skóladegi loknum.

Jafnvel á Norðurlöndum þar sem jafnrétti kynja er talið með allra besta móti leggjast foreldraskyldur enn ójafnt á mæður og feður (Ársæll Arnarsson og Hermína Gunnþórsdóttir, 2016; Berglind Rós Magnúsdóttir og Helga Hafdís Gísladóttir, væntanlegt 2017; Gunnarsdottir, Petzold og Povlsen, 2014). Mæður bera mun meiri ábyrgð á uppeldi, aðstoð við heimanám og samskipti við skóla barna sinna heldur en feður (Berglind Rós Magnúsdóttir,
2014; Lareau, 2002; Reay, 1998a, 2004; Vincent, 2010
). Þær finna fyrir meiri þrýstingi eru misjafnlega í stakk búnar til að takast á við þennan þrýsting og þann félagslega veruleika sem mætir þeim þegar grunnskólaganga barna þeirra hefst. Á sama tíma sýna rannsóknir að einstæðir feður eiga oft erfitt með að uppfylla foreldraskyldur sínar (Bjarnason, T. o.fl., 2012) og að þeir feður sem helst eru virkir á menntavettvangi barna sinna eru í millistétt
(Farstad og Stefansen, 2015; Gillies, 2009). Hérlendis hefur það færst í vöxt að börn foreldra sem ekki búasaman dvelji að stórum hluta hjá feðrum sínum en í fjölþjóðlegri rannsókn (HBSC) þar sem 11, 13 og 15 ára börn eru spurð um ýmsa þætti varðandi heilsu, líðan og félagslegar aðstæður kom í ljós að íslenskir feður mældust í bestum tengslum við börn sín af þátttökuþjóðum (Ársæll Arnarsson og Hermína Gunnþórsdóttir, 2016). Ekki er ljóst hvort og þá hvernig tengslin mótast af stéttarstöðu feðra né foreldravinnu þeirra á menntavettvangi í þágu barna sinna. Með því að skoða markvisst kyn og stétt foreldra í tengslum við uppeldi og skólavettvanginn munu rannsakendur m.a. festa fingur á hvaða veruleiki mætir þessum feðrum í þjóðfélagi sem gerir enn ráð fyrir meiri uppeldisvinnu mæðra. Með hvaða hætti er þeirra tilfinninga- og uppeldisvinna og hvernig takast þeir á við samskipti við menntavettvanginn þar sem mæður eru mun sýnilegri og virkari þátttakendur?

Það er ekki tilviljanakennt hvaða hópar mæðra og feðra eiga erfitt uppdráttar við að uppfylla foreldraskyldur sínar gagnvart skólunum. Rannsóknir hafa staðfest að bakgrunnur, reynsla og stéttarstaða foreldra skiptir máli í samskiptum við menntavettvanginn (Gillies, 2007; Holloway og Pimlott-Wilson, 2013; Perrier, 2013). Ekki hefur áður verið rannsakað hvernig þessi veruleiki birtist hérlendis með tilliti til fleiri bakgrunnsþátta foreldra svo sem kyns og menntunar. Þá hefur heldur ekki verið rannsakað hvers konar menningar- og félagsauður nýtist fólki í foreldrahlutverki sínu í samskiptum við menntavettvanginn eða hvernig aðstæður mæðra og feðra eru ólíkar að þessu leyti. Í þessari rannsókn verður kastljósinu beint að mæðrum og feðrum sem eru tekjulág og með stutta eða enga skólagöngu umfram skyldunám. Þær lykilspurningar sem leitað verður svara við eru: Með hvaða hætti
spilar kyn og stétt mæðra og feðra saman þegar kemur að samskiptum foreldra í lægri stéttum við skóla barna sinna? Hverjar eru áskoranir hópanna og bjargráð? Hvaða áhrif hefur kyn, hjúskaparstaða og aðrir veigamiklir bakgrunnsþættir á borð við uppruna, tungumál, trúarbrögð, aldur, búsetu, fötlun og sérþarfir barns á valdatengsl þeirra innan menntavettvangsins?

Kenningarammi Bourdieu sem hér er stuðst við gerir ráð fyrir ríkulegri gagnaöflun af eigindlegum toga. Auk söfnun fyrirliggjandi gagna um þróun menntastefnu og foreldrastarfs hérlendis verða því tekin 75 ítarleg viðtöl við foreldra í þeim hópum sem hér um ræðir. Þessi fjöldi er nauðsynlegur svo hægt sé að greina þemu og niðurstöður eftir ólíkum bakgrunnsþáttum eins og skýrt er hér að aftan. Að auki verða teknir 6 rýnihópar með kennurum til að fá þeirra sýn á viðfangsefni rannsóknarinnar. Með þessum hætti fæst heildstæð mynd af því rannsóknarefni sem hér um ræðir. Niðurstöður rannsóknarinnar munu birtast í bók sem gefin verður út veturinn 2019-2020 en einnig í fræðigreinum og á ráðstefnum/málþingum.

Staða þekkingar, nýnæmi og hagnýtingargildi verkefnis.

Margar rannsóknir sýna að bakgrunnur, reynsla og stéttarstaða foreldra skiptir máli í samskiptum við skóla og menntavettvanginn (Berglind Rós Magnúsdóttir, 2014; Lareau, 2002; Reay, 1998a, 2004; Vincent, 2010). Að auki sýna norrænar rannsóknir að samskipti við skóla og aðrar foreldraskyldur að öðru leyti hvíla þyngra á mæðrum en feðrum (Ársæll Arnarsson og Hermína Gunnþórsdóttir, 2016; Berglind Rós Magnúsdóttir og Helga Hafdís
Gísladóttir, væntanlegt 2017; Gunnarsdottir o.fl., 2014). Aukin áhersla á aðkomu foreldra að menntun barna sinna setur því óhjákvæmilega meiri kvaðir á mæður (Reay 2005). Á sama tíma hafa rannsóknir sýnt að almenn orðræða og aðgerðir er miða að því að auka þátt feðra í uppeldi og samskiptum við skóla miðast frekar við veruleika feðra í millistétt en taka ekki með í reikninginn þær hindranir sem feður með minni efnahags- félags- og menningarauð
standa frammi fyrir (Farstad og Stefansen, 2015; Gillies, 2009). Að auki hefur ekki verið rannsakað hvernig einstæðum feðrum reiðir af í menningu sem gerir fyrst og fremst ráð fyrir virkni mæðra.

Fræðilegt gildi þessarar rannsóknar er margþætt.

Í fyrsta lagi að skoða hvort kynja- og stéttamunur í foreldraþátttöku og samskiptum við skólakerfið eigi við hérlendis þar sem stétt og staða að öðru leyti hefur verið talin hafa lítil áhrif á líf fólks og kynjajafnrétti mælist með besta móti í heiminum. Þannig er markmiðið að greina samverkandi áhrif kyns og stöðu á samskipti við skóla og tækifæri til að sinna foreldraskyldum sínum í landi þar sem fæðingartíðni og atvinnuþátttaka kvenna er með allra mesta móti (sjá t.d. tölur frá WEF 2014). Það er vitað að foreldrar af milli- og efristéttum taka jafnan meiri þátt í foreldrastarfi á menntavettvangi heldur en foreldrar með lægri stéttarstöðu (Berglind Rós Magnúsdóttir, 2014; Reay, Crozier og James, 2011), en könnun á viðhorfum íslenskra foreldra til þátttöku í skólastarfi benda í sömu átt þar sem foreldrar með hærri menntunarstöðu töldu samskiptin mikilvægari (Kristín Jónsdóttir og Amalía Björnsdóttir, 2014).
Samverkun kyns og stéttar í foreldrahlutverki hefur lítið sem ekkert verið skoðað hérlendis. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á foreldraþátttöku hafa gjarnan ekki tekið til skoðunar mögulegan mun á þátttöku og hlutverki mæðra og feðra (Kristín Jónsdóttir og Amalía Björnsdóttir, 2014; Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, 2016). Þá hafa þær heldur ekki skoðað ólíkar aðstæður foreldra eftir efnahags- menningar- og félagsauði þeirra. Þó er
væntanleg í birtingu grein Berglindar R. Magnúsdóttur og Helgu H. Gísladóttur (væntanlegt 2017) um Bjargráð mæðra við að fylgja eftir skólagöngu og sérfræðiráðgjöf barna sinna með einhverfurófsröskun þar sem fram kemur að mæður í lægri stéttum voru í afgerandi verri aðstöðu til að fylgja eftir skólagöngu barna sinna. Eins hefur stéttarstaða mæðra af erlendum uppruna hefur mikið að segja varðandi sjálfstraust þeirra og virkni í samskiptum
(Suárez-Orosco, Yoshikawa og Tseng, 2015). Það hefur einnig komið fram meðal austur-evrópskra mæðra í íslensku samhengi (Aase Vivaas, 2015). Í erlendum rannsóknum um samverkun kyns og stéttar á foreldrahlutverk hefur komið í ljós að mæður hafa borið meginábyrgð á að börnin njóti góðs af félags-, menningar og efnahagsauði fjölskyldunnar sem ýtir undir að þau nái sterkri náms- og félagsstöðu innan skólans (Reay, 2004).

Í öðru lagi felst gildið í að skoða virkni foreldra út frá hjúskaparstöðu með áherslu á einstæða foreldra. Rannsókn á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sýnir að töluverður hópur ungra öryrkja eða fólks í endurhæfingu sem hvorki sækir skóla né vinnu eru einstæðir foreldrar, einkum ungar einstæðar mæður. Einnig að þennan hóp skortir stuðning í foreldrahlutverkinu og erfitt sé fyrir mæðurnar að komast í nám eða vinnu (Guðný Bergþóra
Tryggvadóttir, Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir og Ásdís Aðalbjörg Arnalds, 2016). Lífsánægja barna einstæðra foreldra er marktækt lakari en barna sem búa hjá báðum foreldrum (Bjarnason, T. o.fl., 2012) og börn einstæðra foreldra líklegri en önnur til að búa við sárafátækt (Anton Örn Karlsson og Kolbeinn Stefánsson, 2016). Eins er lífsánægja barna sem búa hjá einstæðum feðrum lökust. (Bjarnason, T. o.fl., 2012). Feður eru almennt minna virkir heldur en mæður á menntavettvanginum. Til að svara rannsóknarspurningunum verður því valið markmiðsúrtak feðra sem búa að hluta að öllu leyti með börnum sínum en búa ekki með barnsmóður sinni og búa heldur ekki með annarri konu sem gæti tekið yfir hefðbundin hlutverk móður. Hvergi reynir jafn mikið á virkni og skyldur feðra en þegar þeir sjá alfarið eða að miklum hluta um uppeldi og skólagöngu barns. Hugmyndin er því að
hugtakið “einstæðir feður” sé víkkað út til að ná til breiðari hóps. Þótt einstæðir feður mælist fáir skv. hefðbundnum skilningi þegar tekið er tillit til lögheimilisskráningu barna má ljóst vera að fjölmargir feður búa einir og sinna stórum hluta uppeldis barna sinna, s.s. í gegnum sameiginlegt forræði þótt barn eigi lögheimili hjá móður sinni. Aðstæður þessa hóps þegar kemur að uppeldi og samskiptum við menntavettvanginn hafa lítið sem ekkert verið rannsakaðar hérlendis. Með því að skoða samverkun kyns og stéttarstöðu í tengslum við aðra bakgrunnsþætti mun rannsóknin varpa mikilvægu ljósi á aðstæður þeirra, þau bjargráð sem þeir nýta sér og hindranir sem þeir standa frammi fyrir.

Í þriðja lagi er fræðilegt gildi rannsóknar að rýna í samspil kyns og stéttar við uppruna. Þannig sýna hérlendar rannsóknir á stöðu erlendra foreldra gagnvart skólagöngu barna sinna að þeir rekast á menningarbundnar hindranir og hindranir er varða tungumál og málskilning. Að auki eru þeir oft að fást við ólíka skólamenningu en þeir hafa sjálfir alist upp við (Lay, 2016). Þessir þættir í samspili við stéttarstöðu og kyn geta haft afgerandi áhrif á aðstöðu
þeirra til að sinna skyldum sínum sem foreldrar gagnvart skólakerfinu og nýta sér aukið frjálsræði í vali á skólum. Foreldrar í hópi innflytjenda koma til landsins með afar ólíkt menntunarstig og eru misjafnlega vel í stakk búin til að sinna skyldum sínum við skólagöngu barna sinna. Þá sýna niðurstöður kannana að þau mæta erfiðleikum í tengslum við aðgengi að upplýsingum (Kristín Erla Harðardóttir, Heiður Hrund Jónsdóttir og Friðrik H. Jónsson,
2005) og í tengslum við heimanám barna sinna (Suárez-Orosco o.fl., 2015; Tran, 2015).

Í fjórða lagi verður samspil kyns og stéttar skoðað í samhengi við barnið og hvernig skólakerfið hefur skilgreint “skortstöðu” þess gagnvart skólanum (e. deficit discourse). Fjölmargar rannsóknir sýna fram á verulegt aukið álag og skert bjargráð mæðra og feðra sem eiga fatlað barn eða barn með miklar sérþarfir í námi (Berglind Rós Magnúsdóttir og Helga Hafdís Gísladóttir, væntanlegt 2017; Dóra Bjarnason, 2011; Riddell, Brown og Duffield, 1994) og barn með skilgreinda hegðunarörðugleika eins og ADHD (Blum, 2007). Þegar barn er með sérþarfir reynir enn frekar á félags-, menningar- og efnahagslegan auð foreldra. Ekki síst þar sem reynir mjög á virðingu kennara og sérfræðinga fyrir foreldrum og þekkingu þeirra á börnum sínum (Bjarnason, D., 2009). Tilfinningaálagið eykst enn frekar í aðstæðum þar sem foreldrar eru tekjulágir; skilnaðartíðni eykst og kynjuð verkaskipting verður gjarnan enn ýktari þar sem mæður taka á sig mammviskubitið (Berglind & Helga Hafdís, væntanlegt 2017). Eins hefur komið í ljós að drengir í lægri stéttum eru í miklum meirihluta þeirra sem fá slíkar hegðunargreiningar (Harwood, 2010; Lahelma, 2014) sérstaklega í skólum í krefjandi umhverfi (e. disadvantaged). Í þessari rannsókn verður sjónum ekki sérstaklega beint að foreldrum með þroskahömlun þar sem Hanna B. Sigurjónsdóttir og fleiri hafa gert aðstæðum þess hóps nokkuð ítarleg skil hérlendis (sjá t.d. Hanna Björg Sigurjónsdóttir og Rannveig Traustadóttir, 2001). Þá verður heldur ekki skoðaður sá hópur foreldra sem á börn með margþætta fötlun (e. severe disabilities) þar sem Dóra S. Bjarnason hefur gert þeim hópi vel skil í sínum rannsóknum. Þess í stað mun áherslan vera á foreldra barna með skilgreinda hegðunar- og tilfinningaerfiðleika.

Í fimmta lagi verður skoðað hvernig bjargráð þessara hópa markast af búsetu og ólíku aðgengi að sérfræðiþjónustu, tómstundum, og skólastarfi í þéttbýli og dreifbýli en einnig verður rýnt í áhrif ólíkrar hverfasamsetningar í borgarsamfélaginu. Vitað er að það hefur neikvæðari áhrif á líðan nemenda sem búa við fátækt að vera staðsettur í hverfi þar sem efnahagsauður er ríkjandi og auknar líkur á einelti (Hlín Kristbergsdóttir og Jón Gunnar Bernburg, 2011) en slíkt ástand eykur mjög á álag foreldra. Því verður lögð verður áhersla á að viðtölin verði mettandi hvað varðar ólík hverfi og landsvæði svo unnt verði að greina þau þemu sem fram koma eftir búsetu.

Almennt eiga þær rannsóknir sem hér hafa verið nefndar það sameiginlegt að gegnumgangandi er mikill munur á aðstæðum mæðra annars vegar og feðra hinsvegar og einnig munur eftir aðgengi að efnahags- menningar og félagsauði. Því eru kyn og stétt þeir meginásar sem rannsóknin hverfist um í samspili við áðurnefnda bakgrunnsþætti. Rannsókn sú sem hér er sótt um styrk fyrir yrði brauðryðjendaverk á því sviði að skoða aðstöðumun mæðra og feðra gagnvart foreldraskyldum og menntakerfinu. Ekki hefur áður verið kannað með markvissum og heildstæðum hætti hérlendis hvaða áhrif það hefur á samskipti við grunnskólakerfið að mæður annarsvegar og feður hinsvegar búi yfir minni efnahags- menningar eða félagsauð.