Berglind Rós Magnúsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir. (2005). Er grunnskólinn kvenlæg stofnun? Í Steinunn Helga Lárusdóttir, et.al. (Eds.) Kynjamyndir í skólastarfi (p. 151-172).
Í greininni „Er grunnskólinn kvenlæg stofnun?“ er leitast við að gefa heildstætt yfirlit yfir grunnskólann og fjallað er um aðalnámsskrá, starfsmannamál og kynjaskiptingu meðal starfsmanna, námslega og félagslega stöðu grunnskólabarna og loks hina samfélagslega orðræðu um grunnskólann. Kaflinn var skrifaður árið 2005 þegar drengjaorðræðan svokallaða var að ná fótfestu í samfélaginu. Háværar raddir voru um að grunnskólinn væri kvenlæg stofnun og að drengir stæðu höllum fæti í skólakerfinu. Þetta átti ekki síst rætur í því að stelpur stóðu sig betur en strákar í stærðfræði í Pisa–könnuninni árið 2003 (Júlíus K. Björnsson, Almar Miðvík Halldórsson, & Ragnar F. Ólafsson, 2004) sem var nýmæli því fram að því höfðu íslenskir strákar að meðaltali staðið framar eða jafnfætis í stærðfræði og raungreinum.