Berglind Rós Magnúsdóttir. (2005). Ég veit alveg fullt af hlutum en… Hin kynjaða greindarorðræða og birtingarmyndir hennar meðal unglinga í bekkjardeild. Steinunn Helga Lárusdóttir, et.al. (Eds.), Kynjamyndir í skólastarfi (p. 171-195). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.
Þessi grein er byggð á köflum úr meistararitgerð minni (Berglind Rós Magnúsdóttir, 2003). Greinin er byggir á aðferðum orðræðugreiningar þar sem rýnt er í orðræðu 15 ára unglinga um eigin greind og annarra í unglingadeild grunnskólans þar sem rannsóknin fór fram. Skólinn er staðsettur í rótgrónu millistéttarhverfi í Reykjavík. Ljóst er að hin aldagamla greindarorðræða lifir enn góðu lífi en birtist e.t.v. með öðrum hætti nú en á upplýsingaöldinni. Þekking og geta sem mest virðing er borin fyrir virðist í miklu meira mæli vera tengd karlmennsku. Skólinn og menning hans styður mjög við þessa ráðandi orðræðu. Eins virðast kröfur hans henta sérlega vel veruhætti hópa sem eiga háskólagengna foreldra. Þess vegna hafa íþróttahóparnir sterkari stöðu en jaðarhópurinn. Það menningarauðmagn sem t.d. fylgir því að hafa kynnst öðrum tungumálum og menningu og hafa öðlast þekkingu í uppeldinu á fræðum sem eru mikils metin í skólanum fellur vel að ráðandi orðræðu. Hugtakið greind felst þá í því að hafa innbyrgt ákveðna tegund af menningu fremur en að það tengist sköpun eða að hafa skilning og þekkingu á námsefninu. Eins virðist það tengjast sterkt ákveðnum hugmyndum um að sumir séu fæddir snillingar sem þurfi aldrei að læra neitt eða leggja neitt á sig og þar kom skýrt fram að það átti þó aðeins við um karlkyns nemendur. Engin stelpa var álitin snillingur.