Samþjöppun efnahags- og menntunarauðs meðal foreldra af íslenskum uppruna í skólahverfum höfuðborgarsvæðisins 1997-2016

Berglind Rós Magnúsdóttir, Auður Magndís Auðardóttir, & Kolbeinn Hólmar Stefánsson. Samþjöppun efnahags- og menntunarauðs meðal foreldra af íslenskum uppruna í skólahverfum höfuðborgarsvæðisins 1997-2016. Stjórnmál og Stjórnsýsla, 16(2), 285-308.

Samsetning foreldrahópa með tilliti til efnahags, uppruna og menntunar hefur afgerandi áhrif á hvert skólasamfélag. Í þessari rannsókn er stéttaaðgreining milli skólahverfa skoðuð með fræðilegum hætti í íslensku borgarsamfélagi. Byggt er á auðshugtökum Bourdieu við öflun og greiningu á sérvinnslugögnum um foreldra grunnskólabarna frá Hagstofu Íslands 1997–2016. Farin var sú leið að skoða sérstaklega dreifingu foreldra sem hafa mestan efnahags- og menntunarauð og hafa fjölskyldutengsl til Íslands, því þau eru líklegust til að hafa raunverulegt val og táknrænan auð til að móta hugmyndir um gæði skóla og hverfa. Hér er dregin fram landfræðileg aðgreining milli efnahagsauðs- og menningarauðsstéttar í íslensku borgarsamfélagi. Erlendur uppruni, menntunar- og efnahagsauður hafa almennt vaxið meðal foreldra grunnskólabarna á þessu 20 ára tímabili en dreifingin á skólahverfin er skautuð. Annars vegar hefur auðurinn í auknum mæli safnast í tiltekin fimm hverfi af 42 og hins vegar horfið brott frá þremur svæðum þar sem meirihluti foreldra býr við krefjandi félags- og efnahagslegar aðstæður og hefur engin fjölskyldutengsl á Íslandi.1 Hins vegar hafa þau þrjú hverfi sem eru með hæst hlutfall eigna- og hátekjufólks2 haldið nánast óbreyttri stöðu varðandi hlutfall foreldra af íslenskum uppruna.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *