Skóli án aðgreiningar: Átakapólar, ráðandi straumar og stefnur innan rannsóknarsviðsins

Berglind Rós Magnúsdóttir.  Skóli án aðgreiningar: Átakapólar, ráðandi straumar og stefnur innan rannsóknarsviðsins
Dóra S Bjarnason, Ólafur Páll Jónsson og Hermína Gunnþórsdóttir (Ritstj.), Skóli margbreytileikans – menntun og manngildi í kjölfar Salamanca

Í þessari grein er markmiðið að gefa innsýn í ólíka orðræðuheima sem falla undir skóla án aðgreiningar eins og þeir birtast í rannsóknum og stefnumótun. Skóli án aðgreiningar er orðasamband sem hefur verið notað sem þýðing á hugtakinu „inclusive education“ og merkir í stuttu máli skipulagt skólastarf þar sem nemendur eru ekki aðgreindir í sérstaka skóla, deildir eða bekki eftir fötlun, uppruna eða námsgetu svo dæmi séu nefnd. Þeir eru ekki dregnir í dilka heldur skal leitast við að veita öllum nemendum sama rétt til náms og stuðla að fullri og virkri þátttöku þeirra í skólasamfélaginu. Roger Slee (2011, bls. 84) telur „skóla án aðgreiningar vera pólitískt viðfangsefni þar sem leitast er við að greina þá flóknu þætti sem hindra eða koma í veg fyrir að nemendur fái aðgang að, taki raunverulegan þátt í og takist vel upp í námi“. … Eftir að inngildandi menntun hlaut fjölþjóðlega viðurkenningu í stefnuskjölum UNESCO og OECD hafa ríkisstjórnir og rannsakendur skilgreint og lagað hugtakið að eigin menntastefnu og rannsóknaráherslum. Þetta hefur gert það að verkum að rannsóknir sem finnast í vefleitarvélum undir merkjum inngildandi menntunar (e. inclusive education) eru afar ólíkar hvað varðar þekkingar- og aðferðafræði og skilning á hugtakinu. Segja má að markmiðin séu þau sömu að því leyti að allir rannsakendur og stefnumótendur innan fræðasviðsins vilja skapa þekkingu til aukins skilnings á inngildandi menntun en eru ósammála um hvers eðlis hún er. Eins eru þekkingar og hugmyndafræðileg átök um hvers konar sjónarhorn, spurningar, hugtök, rannsóknaraðferðir, tungumál og aðgerðir séu best til þess fallnar að vinna að markmiðum inngildandi menntunar. Mikilvægt er að varpa ljósi á þessa ólíku kenningaskóla því þegar við skiptum um kenningarlegt sjónarhorn breytist sýn okkar á það sem við hyggjumst rannsaka eða fjalla um í okkar störfum. Í upphafi þessarar greinar er fjallað um fjórar rannsóknarhefðir sem skilgreina má innan skóla án aðgreiningar. Byrjað er á því að gera grein fyrir eldri hugmyndum um sérkennslu en síðan verða nýlegri hugmyndir um inngildingu reifaðar. Í framhaldi af því er rýnt í hvernig munur á árangri milli skóla er rannsakaður og skýrður og hversu mismunandi háttur er hafður þar á. Þar er haldið áfram að bera saman ólíka póla í fræðasamfélaginu, þ.e. hefðir og sjónarmið frá gagnrýnu félagsfræðinni og svo þeirra fræðimanna sem kenndir hafa verið við skólaskilvirkni og skólaumbætur. Sá kafli er í raun undirbygging fyrir

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *