Makalausar formæður: Sviptingar í lífi fyrirkvenna í kjölfar skilnaðar

Berglind Rós Magnúsdóttir. Makalausar formæður: Sviptingar í lífi fyrirkvenna í kjölfar skilnaðar – Irma Erlingsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir (Ritstj.), Fléttur IV – Margar myndir ömmu

Hér fjallar höfundur um ömmur föður síns sem fæddust um 1880 og voru á fertugsaldri þegar heldri konur fengu kosningarétt á Íslandi. Móðurmóðir föðurins, Kristrún Tómasdóttir Hallgrímsson Benediktsson, átti uppruna sinn í hefðarslektum fámennrar borgarastéttar Íslands. Hún þótti fara út fyrir einstigi stéttarsóma síns þegar hún féll fyrir talsvert yngri og óþekktum bóndasyni að vestan. Föðurmóðir föðurins, Ingibjörg Hjartardóttir, var hreppstjóradóttir frá Efra-Núpi í Húnavatnssýslu. Hún giftist ættstórum sýslumanni, Halldóri Kr. Júlíussyni, sem var sjö árum eldri en hún og átti þegar einn son. Þessar formæður höfundar áttu það sameiginlegt að verða karlmannslausar með ung börn sín í upphafi 20. aldar; í kulda og trekki feðraveldis, nokkuð sem hafði afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífshlaup þeirra, möguleika og virðingarsess. Þó beittu þær báðar ýtrustu útsjónarsemi við að láta drauma sína rætast og reyndu fyrir sér í Ameríku. Það er ekki mikið til af opinberum gögnum um líf þeirra en víða leynast upplýsingar um lífshlaup þeirra og vísbendingar um drauma og væntingar, meðal annars í skáldsögum um eiginmenn þeirra, ritverkum um feður þeirra og svo minningum aðstandenda.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *