Berglind Rós Magnúsdóttir. „Að tryggja framboð og fjölbreytileika“: Nýfrjálshyggja í nýlegum stefnuskjölum um námsgagnagerð – Uppeldi og menntun
Á síðustu áratugum hafa orðið gagngerar breytingar á orðræðu um menntun. Þessar breytingar hafa verið hnattvænar og menntaorðræðan á Íslandi hefur ekki farið varhluta af þeim. Hér verður rýnt í breytingar á vettvangi námsgagnagerðar fyrir grunnskóla sem tengja má við nýfrjálshyggju í alþjóðlegri orðræðu. Í greininni eru gefin dæmi um hvernig slík orðræða birtist í nýlegum stefnuskjölum um námsefnisgerð hér á landi. Laga- og stefnubreytingar í anda nýfrjálshyggju felast einkum í einkavæðingu, regluslökun, stjórnunarvæðingu, tæknihyggju og breytingum á lýðræði í takt við auknar markaðsáherslur. Rökstuðningurinn er gjarnan sá að með þessum breytingum megi betur „tryggja framboð og fjölbreytni“ sem reyndist vera þrástef í orðræðu stefnuskjalanna. Skoðað er sérstaklega hvort og þá hvernig a) orðræðan um námsgögn í lögum frá 1990 til 2007 breyttist í takt við þessi meginhugtök, þrástef og lögmál nýfrjálshyggjunnar, og b) hvernig stefnuskjöl Námsgagnastofnunar frá 2007 til 2011 markast af þessari orðræðu.