Námshegðun leiðtoga í unglingabekk í ljósi rannsókna og kenninga um menningarauðmagn

Berglind Rós Magnúsdóttir. Námshegðun leiðtoga í unglingabekk í ljósi kenninga um menningarauðmagn – Tímarit um menntarannsóknir

Bourdieu leitaðist við að skýra misgóðan námsárangur og ólíka námshegðun nemenda með kenningum sínum um menningarlegt auðmagn. Sumir fræðimenn telja að ráðandi skilningur og notkun á hugtakinu sé takmarkandi miðað við skilgreiningar Bourdieus, t.d. í þekktri grein hans; „The forms of capital“. Þessi gagnrýni er skoðuð í ljósi íslenskra rannsókna. Út frá þessari almennu umfjöllun er sjónarhorninu beint að námshegðun leiðtoga í unglingabekk, þ.e. stráks og stelpu í 10. bekk. Ávinningur þess að skoða leiðtoga nemendahóps í þessu samhengi felst í því að ætla má að hegðun og viðhorf leiðtoganna sé birtingarmynd þess auðmagns sem er eftirsóknarvert í samfélagi unglingahópsins sem þau tilheyra. Í greininni er því lýst hvers konar námshegðun þótti virðingarverð í hópnum en slíkt virtist mótast talsvert af menningarauðmagni og kynferði. Sjónum er beint að því hvað einkenndi námshegðun og námsviðhorf leiðtoganna, hversu miklu einkunnir skiptu í því sambandi og hvaða hópar virtust hagnast á háum einkunnum. Þá er skoðað hvernig niðurstöður samræmast skilgreiningum og áðurnefndum rannsóknum á menningarauðmagni. Niðurstaða höfundar er sú að það þurfi að endurskoða notkun og skilning á hugtakinu til að öðlast frekari skilning og skýringar á mismunandi náms- og félagsstöðu íslenskra nemenda. Skoða þarf ólíkar víddir hugtaksins í samhengi við viðteknar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika innan þess vettvangs sem rannsaka á og ráðandi gildi í menningarumhverfi unglinganna.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *